Lög Organon

Lög Organon, fagfélags hómópata
1.gr.
Nafn og varnarþing
Nafn félagsins er Organon og er fagfélag hómópata.
Heimili þess og varnarþing fylgir formanni hverju sinni.

2.gr.
Tilgangur og markmið félagsins
Organon vinnur að framgangi faglegrar hómópatíu á Íslandi og er opinber málsvari hennar. Félagið skal vinna að því að tryggja sameiginlega hagsmuni hómópatíu, stuðla að framförum á sviði hómópatíu og almennri viðurkenningu hennar.

Grundavallar markmið Organons fagfélags hómópata:
Að fræða allar heilbrigðisstéttir sem og almenning um hómópatíu.
Að stuðla að samvinnu og fagmennsku og ýta undir stöðuga þekkingarleit íslenskra hómópata.
Hafa jákvæð og fagleg samskipti við allar heilbrigðisstéttir.
Að vernda rétt almennings til þess að njóta bestu þjónustu sem völ er á í hómópatíu og virða valfrelsi einstaklingsins.

Innri markmið Organons fagfélags hómópata:
Halda skrá yfir faglærða hómópata á Íslandi.
Stuðla að og efla bestu mögulegu menntun og þjálfun í hómópatíu.
Hvetja til símenntunar faglærðra hómópata.
Að veita nýjum félögum stuðning.
Að standa vörð um siðareglur félagsins.
Að styðja og efla rannsóknir í hómópatíu.
Að koma á og viðhalda nánum tengslum við erlend fagfélög í hómópatíu.

3.gr.
Reglur um aðild
Fullgildir félagar geta þeir orðið sem útskrifast hafa frá viðurkenndum hómópataskólum.
Þegar viðurkenndur hómópataskóli er starfræktur á Íslandi, skulu nemar kjósa sér fulltrúa úr hópi nema til setu í stjórn félagsins með fullan atkvæðisrétt samkvæmt eftirfarandi reglum:

Leitast skal við að kosnir séu fulltrúar frá tveimur síðustu árum námsins (3 og 4 ári). Hvor bekkur um sig kýs sinn fulltrúa. Hægt er að kjósa 2 fulltrúa af sama ári eða nema á öðru ári vilji þannig til að árgang vanti til að uppfylla ofangreind skilyrði. Þetta ákvæði gildir þó aldrei fyrir nema á fyrsta ári. Ef ekki eru fulltrúar nema til staðar í stjórn, skal kjósa fulltrúa í þeirra stað úr röðum útskrifaðra hómópata.
Nemar, að undanteknum fulltrúum þeirra í stjórn eiga rétt á aukaaðild að félaginu. Þeir hafi tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Nemar eiga rétt á nefndarsetu.

4. gr.
Notkun félagsmerkis Organon
Félagsmerki Organon fagfélags hómópata mega þeir einir nota sem eru félagar í Organon. Stjórn Organon getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

Félagsmerkið ber einungis að nota til auðkenningar á félagsaðild eða kynningar á fagfélaginu Organon. Undantekningar frá þessu eru háðar samþykki stjórnar Organon.

Notkun félagsmerkis Organon má aldrei brjóta í bága við lög og siðareglur Organon fagfélags hómópata.

Viðurlög við brotum á þessum reglum eru áminning, brottvikning úr Organon eða vísum til almennra hegningarlaga, allt eftir alvarleika eða endurtekninga brota.
Stjórn Organon mun meta brot og viðurlög hverju sinni.

Verði ekki sátt um notkun eða viðurlög má skjóta málum til siðanefndar Organon sem hefur þá úrslitavald.

5. gr.
Félagsgjöld
Félagsárið er almanaksárið.
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi. Gjalddagi þess er 1. janúar ár hvert. Félagsgjald skal standa undir rekstri félagsins.
Félagar með aukaaðild sem og fulltrúar nema í stjórn greiði hálft félagsgjald.
Félagsmaður sem er í vanskilum með félagsgjöld er ekki kjörgengur á aðalfundi.
Hann hefur heldur ekki atkvæðisrétt. Standi félagsmaður ekki í skilum á félagsgjöldum sínum á hann á hættu að missa aðild sína að félaginu.
Félagsgjöld eru óendurkræf.

6. gr.
Riftun félagsaðildar
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg af hálfu félagsmanns og/eða stjórnar.
Hafi félagsmaður orðið uppvís að faglegu misferli, getur stjórnin ákveðið að svipta hann aðild að félaginu, og skal það gert skriflega. Félagsmaður skal eiga kost á að áfrýja sviptingunni til siðanefndar félagsins.

7. gr.
Skipun og hlutverk stjórnar, starfsreglur og fl.
Á aðalfundi Organon skal kjósa fimm manna aðalstjórn, formann, fjóra stjórnamenn og tvo varamenn. Formaður skal kosinn sérstaklega á  aðalfundi.
Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Stjórn skal skipa þriggja manna siðanefnd og einn til vara á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Framboð til formanns skulu berast stjórnar Organons eigi síðar en 1. mars ár hvert.
Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum en falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði. Kjörtímabil stjórnar skal vera milli aðalfunda. Daglega stjórn félagsins annast formaður Organon. Að jafnaði hefur gjaldkeri einn prókúru félagsins.
Stjórnin hefur umsjón með eigum félagsins og gætir hagsmuna þess í öllum atriðum.

Í aðalgerðarbók Organons sem skal vera löggild, skal rita allar fundargerðir félagsins.
Félagsmenn skulu hafa aðgang að fundargerðum stjórnar.

Óski stjórnarmaður fundar um ákveðið mál skal formaður boða stjórnina á fund svo skjótt sem kostur er.

Stjórnarmenn eiga að tilkynna félagsmönnum allar reglur og samþykktir sem gerðar eru varðandi starf félagsins skriflega eða með öðrum hætti. Aðalfundur getur breytt eða hnekkt reglum og samþykktum eða bætt við þær.

8. gr.
Kærumál og agareglur
Berist kæra til stjórnar Organons vegna framferðis félagsmanns, skal stjórn taka málið til meðferðar fljótt og vel og kanna réttmæti þess. Allir málsaðilar skulu hafa rétt til að tala máli sínu og skulu allar niðurstöður vera skriflegar. Verði ekki fallið frá kæru að lokinni málsmeðferð stjórnar eða niðurstaða stjórnar ekki viðunandi getur félagsmaður skotið máli sínu til siðanefndar Organon innan 14 daga frá því að honum berst kæra. Siðanefnd tekur þá kæruna til meðferðar, þar á meðal málsmeðferð stjórnar og tekur endanlega ákvörðun sem ekki er hægt að áfrýja aftur.

9. gr.
Aðalfundur
Aðalfundur og ályktanir
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Organon.

Aðalfund skal halda fyrir maí lok ár hvert, eftir nánari ákvörðun stjórnar.
Stjórnin boðar til aðalfundar og undirbýr hann.
Til aðalfundar skal boða með minnst 3 vikna fyrirvara og skal það gert bréflega og með tölvupósti.
Í fundarboði skal getið helstu mála sem koma eiga fyrir fundinn. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Rétt til að sækja aðalfund hafa allir sem eru skráðir í Organon og eru skuldlausir við félagið. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa fullgildir félagsmenn og tveir stjórnarfulltrúar hómópatanema. Sé skriflegrar atkvæðagreiðslu óskað skal hún fara fram.
Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram endurskoðaða reikninga síðasta árs.
Fundarstjóri og fundarritari annast fundargerð aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
Fundarsetning í umsjá formanns.
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Fundargerð síðasta aðalfundar borinn upp til samþykktar.
Skýrsla formanns.
Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
Inntaka nýrra félaga.
Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga og þær lagðar fram.
Ákveðið félagsgjald.
Kosning formanns.
Kosning stjórnarmanna.
Kosning tveggja varamanna í stjórn.
Kosning tveggja skoðunarmanna.
Önnur mál.
Fundarslit.

10. gr.
Aðrir félagsfundir
Félagsfundir skulu boðaðir með minnst 7 daga fyrirvara. Stjórninni er skylt að halda félagsfundi innan 14 daga ef 1/10 félagsmanna óskar þess skriflega. Ef formanni eða stjórn sýnist brýna nauðsyn bera til er heimilt að boða til félagsfundar með skemmri fyrirvara.

11. gr.
Reikningar
Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.

Stjórnin skal leggja fram árlegt reikningsuppgjör. Skoðunarmenn félagsins fara yfir reikninga og staðfesta þá. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi ár hvert.

Stjórn félagsins er óheimilt að takast á hendur fjárhagsskuldbindingar í nafni
félagsins.

12. gr.
Breytingar á lögum
Til breytinga á lögum þessum þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar Organons eigi fyrr en 1. mars og eigi síðar en 31. maí.
Stjórn skal senda tillögurnar með fundarboði aðalfundar til félagsmanna til kynningar.

13. gr.
Slit félagsins
Ef ráðlegt eða nauðsynlegt er talið að leysa upp Organon, skal afgreiða tillögur þar að lútandi á sama hátt og tillögur til lagabreytinga. Verði félagið leyst upp, skulu eignir þess varðveitast þar til annar félagsskapur rís á sama sviði og með sambærileg markmið.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Organon þann 22. maí 2004.
Breytingar á lögum voru samþykktar á aðalfundi Organon þann 3 maí 2006